Forseti

þriðjudagur, 16. ágúst 2022

Eyrún Ingadóttir

Grímur Þ. Valdimarsson var kjörinn forseti Rótarýklúbbs Rvk -Breiðholt starfsárið 2022-2023.

Grímur fæddist í Reykjavík 1949 en á ættir að rekja í Biskupstungur og Eyjafjallasveit. Hann gekk í Menntaskólann í Reykjavík og þaðan í Háskóla Íslands þar sem farið var að bjóða upp á nám í líffræði. Að loknu BS prófi lá leiðin í framhaldsnám við Strathclyde háskólann í Glasgow þar sem hann rannsakaði örverur sem geta skaðað sjávarfiska í eldiskerjum, en upp úr 1970 töldu margir að blómaskeið fiskeldis í sjó væri rétt handan við hornið.

Þegar heim var komið hóf Grímur störf á gerladeild Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins að Skúlagötu 4. Þeirri stofnun veitti hann síðan forstöðu 1984-1997. Þá lá leiðin til Rómar í starf hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu Þjóðanna (FAO), en hann stýrði Fiskiðnaðarsviði þeirrar stofnunar til 2010. Verkefnin hafa snúið að heilnæmi fiskafurða, geymsluþoli, gæðakerfum og vinnslutækni sem og ábyrgri nýtingu fiskiauðlinda.

Grímur er kvæntur Kristínu Jónsdóttur, líffræðingi og eiga þau þrjú börn, níu barnabörn og þrjú barnabarnabörn.

Grímur Þ. Valdimarsson forseti Rótarýklúbbs Rvík-Breiðholt 2022-2023.