Klúbbheimsókn á Kjarvalsstaði

sunnudagur, 18. september 2022

Guðrún Margrét Hannesdóttir

Rótarýfélagi okkar, Aðalsteinn Ingólfsson, bauð áhugasömum klúbbfélögum upp á leiðsögn á Kjarvalsstöðum sunnudaginn 11. september.

Aðalsteinn fjallaði um sýninguna Andlit úr skýjunum þar sem félagar fengu að kynnast mannamyndum Kjarvals sem hann vann á gjörvöllum ferli sínum.   

Á sýningunni eru olíumálverk af þekktu fólki frá öllum tímabilum, vatnslitamyndir af ítölsku fólki frá 1920, úrval blek- og túskteikninga frá 1928-30, rauðkrítarmyndir af fjölskyldu og nánum vinum og lítt þekktar andlitsmyndir frá seinni árum hans. Loks má geta um hópmyndir hans sem aldrei hafa verið sýndar saman. Á sýningunni eru einnig allar fáanlegar sjálfsmyndir Kjarvals. Andlitsmyndir Kjarvals hafa skipað veglegan sess á yfirlitssýningum á verkum listamannsins og samsýningum af ýmsu tagi en til þessa hefur sjónum ekki verið beint að þessum myndum sérstaklega.   

Við þökkum Aðalsteini hjartanlega fyrir boðið.