RC Reykjavik Breidholt

Founded Monday, February 27, 1984
Club 21629 - District 1360 - Charter number

Kafli úr afmælisritinu "Rótarýhreyfingin á Íslandi 50 ára", sem út kom 1984


Rótarýklúbburinn Reykjavík - Breiðholt er hvítvoðungurinn í Rótarýhreyfingunni á Íslandi. Klúbburinn var stofnaður 12. desember 1983, en varð fullgildur meðlimur í hreyfingunni 25. marz 1984. Stofnfélagar eru 29 og ýmist búfastir eða starfandi í Breiðholtshverfi eða nágrenni.  

Þessi hluti Reykjavíkur telur um 24.600 manns. Hann er fyrst og fremst íbúðarhverfi, en þar er talsverð þjónuststarfsemi í verzlun og viðskiptum, eitthvað af smáiðnaði, þó meira í nágrannahverfum. Svæðið er mjög barnmargt. Þar eru þrír stórir barnaskólar og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, sem með 7 námssviðum á framhaldsskólastigi telur 1256 nemendur.   Flestir íbúanna sækja atvinnu sína annað. Byggðin hefur verið í örri þróun. Sum hverfin eru fullbyggð og góð skipan víðast komin á umhverfið. Tvö stór íþróttasvæði eru í byggingu, sundlaug er fullgerð og þrjá kirkjubyggingar í smíðum.

Menningarmiðstöðin að Gerðubergi hefur verið starfrækt í rúmt ár og mætt brýnustu þörf margs konar félagsstarfsemi. Þar hefur Rótarýklúbburinn fengið athvarf. Fundir eru haldnir þar á mánudagskvöldum kl. 18.15. Maturinn er keyptur að af veitingahúsi, sem flytur hann á staðinn, en Menningarmiðstöðin sér um framreiðslu og kaffi.  

Forsaga

Á rótarýárinu 1975-1976 beindist fyrst athygli að hugsanlegri klúbbstofnun í Breiðholti. Þá var Gissur Ó. Erlingsson umdæmisstjóri. Þá var ákveðið, að Rótarýklúbbur Kópavogs skyldi verða ábyrgðar-klúbbur væntanlegs klúbbs og Jóhann Jóhannsson, fyrrverandi skólastjóri á Siglufirði og umdæmisstjóri 1960-1961, sem var orðinn félagi í Rótarýklúbbi Kópavogs, gerður að formanni útbreiðslunefndar. Jóhann hafði samband við marga aðila í Breiðholti, þar á meðal séra Guðmund Sveinsson, skólameistara Fjölbrautaskólans í Breiðholti, umdæmisstjóra 19681969 og félaga í Rótarýklúbbnum Reykjavík - Austurbæ. Séra Guðmundur studdi málið, en undirtektir undir klúbbstofnun voru heldur daufar.

Þrátt fyrir mikið og óeigingjarnt starf Jóhanns bar það ekki þann árangur, sem að var stefnt.   Tilraunir til klúbbstofnunar lágu niðri að mestu til rótarýársins 1980-1981. Þá var kosin útbreiðslunefnd á umdæmisþingi að Laugarvatni dagana 28. - 29. júní, en nefndin var aldrei kölluð saman. Ári síðar verða þáttaskil, þegar Pétur Maack Þorsteinsson í Rótarýklúbbi Kópavogs varð umdæmisstjóri. Hann vildi fela séra Guðmundi Sveinssyni að hafa forgöngu um klúbbstofnun. Séra Guðmundur hóf þegar að kanna hug manna í Breiðholtinu til stofnunar rótarýklúbbs þar. Varð að ráði, að klúbbur séra Guðmundar, sem þá var undir forsæti Páls Sigurðssonar ráðuneytisstjóra, tæki að sér að vera ábyrgðarklúbbur. Samkvæmt bréfi Páls frá 10. júní 1982 er séra Guðmundi veitt "fullt umboð stjórnar Rótarýklúbbs Reykjavíkur Austurbæjar til þess að vinna að stofnun rótarýklúbbs í Breiðholti, Reykjavík ... " Á umdæmisþingi 1983 var að uppástungu Ólafs E. Stefánssonar ráðunautar, umdæmisstjóra 1983-1984, kjörin undirbúningsnefnd til að athuga um stofnun nýs klúbbs.   Í nefndinni sátu séra Guðmundur Sveinsson, Húnbogi Þorsteinsson, sveitarstjóri Borgarnesi, tilnefndur umdæmisstjóri, og Sigurður Ólafsson, lyfsali Reykjavík, verðandi umdæmisstjóri, en hann var fulltrúi umdæmisins í nefndinni og formaður hennar. Hóf nefndin þegar að vinna að málinu.  

Klúbbstofnunin

Undirbúningsfundur vegna stofnunar rótarýklúbbs í Breiðholti var haldinn á skrifstofu séra Guðmundar Sveinssonar skólameistara í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti miðvikudaginn 12. október 1983 kl. 20.30. Þangað komu auk séra Guðmundar og Sigurðar Ólafssonar og Ólafs E. Stefánssonar eftirtaldir, sem höfðu verið boðaðir munnlega til fundarins:   Séra Hreinn Hjartarson sóknarprestur í Fella- og Hólasókn, áður einn af stofnendum Rótarýklúbbsins í Ólafsvík. Jón Stefán Rafnsson tannlæknir, áður klúbbfélagi í Ólafsvík. Séra Kristján Búason dósent, áður klúbbfélagi í Ólafsfirði. Loftur J. Guðbjartsson útibússtjóri Útvegsbankans í Kópavogi. Markús Örn Antonsson ritstjóri og forseti Borgarstjórnar. Sigurður E. Guðmundsson framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins. Sigurður Már Helgason deildarstjóri, Pennanum. Stefán Aðalsteinsson búfjárfræðingur, Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Þorkell Steinar Ellertsson námsráðgjafi, Fjölbrautaskólanum Breiðholti.   Séra Guðmundur setti fund og tilnefndi Markús Örn fundarstjóra. Undirbúningsnefndarmenn og umdæmisstjóri kynntu nánar rótarýhugsjónina og hlutverk klúbbsins, sem sé að efla þjónustuanda, gagnkvæma kynningu og skilning fulltrúa ólíkra starfsgreina í samfélaginu. Allir viðstaddir kváðust reiðubúnir að taka þátt í stofnun klúbbs.

Fyrir lá vilyrði um fundarstað í Menningarmiðstöðinni að Gerðubergi, og komu menn sér saman um, að fundartíminn 18.15 á mánudögum væri hagstæðastur fyrir alla. Þá var óskað eftir uppástungum um stofnfélaga. Undirbúningsnefndin tilnefndi þrjá menn til að ganga frá stofnfélagaskrá, þá Kristján Búason, Markús Örn Antonsson og Þorkel Steinar Ellertsson. Rúmum mánuði síðar höfðu þeir gengið frá tillögum um stofnfélaga. Þeir lögðu þær fyrir undirbúningsnefnd, þ. e. séra Guðmund og Sigurð, en Húnbogi átti ekki heimangengt, svo og Óskar H. Gunnarsson framkvæmdastjóra, forseta ábyrgðarklúbbsins. Í samvinnu við undirbúningsnefndina og stjórn ábyrgðarklúbbsins var því næst unnið að undirbúningi stofnfundar, sem boðaður var með bréfi umdæmisstjóra 12. desember 1983 kl. 18.15 í Menningarmiðstöðinni að Gerðubergi.  

Þann fund sóttu 24 af stofnfélögunum, 3 voru staddir erlendis, en 2 tengdust klúbbnum síðar. Auk heimamanna voru þar komnir 11 rótarýfélagar, þ. e. umdæmisstjóri, 7 félagar úr ábyrgðarklúbbnum og 3 félagar úr Reykjavíkurklúbbnum.

Formaður undirbúningsnefndar, Sigurður Ólafsson, stjórnaði fundi, en Bjarni Einarsson framkvæmdastjóri, ritari ábyrgðarklúbbsins, var tilnefndur fundarritari. Ávörp fluttu auk Sigurður Ólafssonar Ólafur E. Stefánsson umdæmisstjóri, Óskar H. Gunnarsson forseti ábyrgðarklúbbsins og dr. Gunnlaugur Snædal. forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur. Við stjórnarkjör lágu fyrir uppástungur undirbúningsnefndar og í stjórn voru kjörnir:   Þorkell Steinar Ellertsson forseti Markús Örn Antonsson verðandi forseti Kristján Búason ritari Einar S. Erlendsson gjaldkeri Sigurður Már Helgason stallari   Þorkell Steinar þakkaði sýnt traust, aðstoð umdæmisstjóra. undirbúningsnefndar, svo og ábyrgðarklúbbsins. og gestum komuna. Áætluðu erindi séra Guðmundar Sveinssonar var frestað til næsta fundar viku síðar, en í því rakti hann sögu og hlutverk rótarýklúbbanna. Hann lagði sérstaka áherslu á gagnkvæman skilning og þjónustu í starfi félaga. Það fór vel á því, að séra Guðmundur lagði til efni fyrsta reglulega fundar klúbbsins, þar sem hann hafði átt svo mikinn þátt í undirbúningi að stofnun hans. Þorkell Steinar lauk fundi með því að hafa yfir fjórprófið: Er það sannleikur? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs? - Hefur sá siður haldist í klúbbnum.  

Fyrsta verk stjórnarinnar var að ganga frá samningi við Menningarmiðstöðina um fundarstað, svo og veitingastaðinn Ártún um kvöldverð á mánudögum til 6 mánaða. Samdist þannig við þessa aðila, að kvöldverður ásamt kaffi, afnotum af húsi og þjónustu kostaði 220 krónur - á mann. Stjórnin skipaði félögum í nefndir og lagði fram starfsáætlun. Í samvinnu við undirbúningsnefndina undir forsæti Sigurðar Ólafssonar, sem reyndist klúbbfélögum afar hjálplegur í hvívetna, var gengið frá starfsgreinaskrá. drögum að lögum klúbbsins og umsókn til stjórnar Rotary International um staðfestingu klúbbsins.

Að fenginni þeirri staðfestingu með bréfi frá aðalritara hreyfingarinnar í Evanston í Bandaríkjunum frá 1. marz 1984 var ákveðið að undirbúa og halda fullgildingarhátíð klúbbsins í Menningarmiðstöðinni að Gerðubergi sunnudaginn 25. marz 1984 kl. 19. Í staðfestingarbréfinu gat aðalritarinn þess, að 20.400 klúbbar með 930.000 félögum í 158 löndum stæðu nú að hreyfingunni.  

Starfssvæði Rótarýklúbbsins Reykjavík - Breiðholt er vestan Snorrabrautar og sunnan Miklubrautar. austan Snorrabrautar og norðan Miklubrautar.  

Fullgildingarhátíðin

Fullgildingarhátíðina sóttu allir stofnfélagar (nema einn sem staddur var erlendis), ásamt eiginkonum sínum, svo og fjöldi annarra rótarýfélaga, einnig með maka, eða alls 98 manns. Af heimamönnum önnuðust undirbúning stjórn og skemmtinefnd. en í henni sátu Einar Hákonarson listmálari og Gunnlaugur Björgvinsson forstjóri. Leyfi fékkst til að setja upp einkennismerki Rótarýhreyfingarinnar við aðaldyr Menningarmiðstöðvarinnar, þá hannaði gjaldkeri og lét prenta einkennisfána klúbbsins, enn fremur var gengið frá félagatali og það prentað.  

Veislustjóri var Sigurður Ólafsson, og setti hann hátíðina. Undir borðum var almennur söngur, sem Þorkell Steinar Ellertsson stjórnaði. Þá voru rótarýfélagar ásamt mökum svo og aðrir gestir kynntir. Meðal þeirra var rótarýfélagi frá Prestwich í Skotlandi ásamt konu sinni. Komu þau gagngert til þess að samfagna félögum hér og minntu með nærveru sinni á alþjóðlegt eðli hreyfingarinnar. Þarna voru mættir fulltrúar og félagar frá Rótarýklúbbnum í Borgarnesi, Görðum, Hafnarfirði, Keflavík, Kópavogi, Mosfellssveit. Reykjavík, Reykjavík - Austurbæ. Selfossi, Seltjarnarnesi, svo og skrifstofu umdæmisins. Ólafur E. Stefánsson umdæmisstjóri flutti rótarýávarp, þar sem hann undirstrikaði þjónustuna innan klúbbsins, samfélagsins, í starfi og á alþjóðavettvangi og minnti á, að í samfélagi Rótarý væru menn meðal vina. Því næst afhenti hann fullgildingarskjal, sem Þorkell Steinar veitti viðtöku.   Þá afhenti umdæmisstjóri viðurkenningu hreyfingarinnar til handa ábyrgðarklúbbi, formanni undirbúningsnefndar, svo og umdæmisstjóra fyrir þjónustu við hreyfinguna og stofnun nýs klúbbs. Þessu næst ávarpaði Þorkell Steinar samkomuna, minnti á háleitar siðgæðiskröfur hreyfingarinnar í starfi og gat fjórprófsins. Þá kynnti hann klúbbfélaga og maka þeirra.

Fulltrúar rótarýklúbbanna fluttu nýja klúbbnum árnaðaróskir og færðu hver og einn honum fána að gjöf, sumir með áletraðri fánastöng. Reykjavíkurklúbburinn gaf forsetakeðju. en ábyrgðarklúbburinn Reykjavík - Austurbær gaf fundarbjölIu og hamar. Þá var flutt kveðja frá borgarstjóra Reykjavíkur. Forseti þakkaði kveðjur og góðar gjafir og afhenti fána klúbbsins sem þakklætisvott, en þakkaði fyrst og fremst auðsýnda vináttu. Þá var einsöngur Elínar Óskar Óskarsdóttur við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar . Loks þakkaði forseti sérstaklega undirbúningsnefndarmönnum og umdæmisstjóra fyrir undirbúning og aðstoð við stofnun klúbbsins og færði þeim fána klúbbsins að gjöf.

Þegar hér var komið, var áliðið kvölds, og sleit þá veislustjóri samkomunni, en nokkrir félaga og gesta gáfu sér tíma til að spjalla saman og stíga dans við undirleik Jónasar Þ. Þórissonar.   Nýr klúbbur hafði bætzt í hóp fullgildra klúbba umdæmisins eða eins og forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur sagði: "Eftir 9 mánaða meðgöngu hefur hvítvoðungur bætzt í hópinn á árinu, þegar sá elzti heldur upp á 50 ára afmæli sitt."

Megi þeim báðum vel farnast.   Kristján Búason.


Listi yfir stofnfélaga klúbbsins 
Einar S. Einarsson Einar Hákonarson Erlendur Steinar Búason Guðmundur Bjarnleifsson Guðlaugur Björgvinsson Guðmundur Guðbjarnarson Gunnar Snorrason Garðar Ingvarson Halldór Ó. Ólafsson Hreinn Hjartarson Hrafn Vestfjörð Friðriksson Jón I. Hannesson Jón Stefán Rafnsson Kristján Búason Loftur J. Guðbjartsson Magnús L. Sveinsson Markús Örn Antonsson Stefán Aðalsteinsson Sigurður Már Helgason Sigurður E. Guðmundsson Sigurður Þorkelsson Sveinn H. Skúlason Valdimar Ólafsson Valdimar Sæmundsson Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorkell Steinar Ellertsson Örn Guðmarsson Þar af eru fimm stofnfélagar enn í klúbbnum í lok október 2021. Það eru þeir Markús Örn Antonsson, Kristján Búason, Sveinn H. Skúlason, Magnús L. Sveinsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. 

Ritað í Reykjavík 21. október
2021 Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson


Members

Active members 41
- Men 35
- Ladies 6
Paul Harris Fellow 19
Club guests 0
Honorary members 1
Other contacts 1

Address

Center hotels Miðgarður

Laugavegi 120
105 Reykjavík
Iceland